Hvernig virkar röðin?

 

Hjá okkur eru ekki tímapantanir heldur röð sem opnar daglega. Ef þú nærð að skrá þig í röðina þá færðu klippingu. Þú færð sms þegar röðin er að koma að þér.

Hér má finna svör við helstu spurningum sem við fáum.

Hvernig skrái ég mig í röðina?

Þú getur komið til okkar í Hamraborg 9 og skráð þig hjá okkur. Þá er möguleiki á að þú þurfir að bíða í einhvern tíma. Á herramenn.is er tengill sem heitir „Biðröðin.“ Með því að smella á hann opnast skráningarkerfið okkar. Þegar þú sérð bláan flipa sem á stendur „Bæta mér í biðina“ getur þú skráð þig í röðina. Ef hann er ekki til staðar er röðin annað hvort full í dag eða hún hefur ekki opnað (það gerist kl. 09:10). Með því að skrá þig á netinu losnar þú við að koma sérstaka ferð til að skrá þig ef röðin er löng. Það sem beðið er um við skráningu er hvaða þjónustu þú vilt, hvaða rakara (eða fyrsta lausa), nafn og símanúmer. Þú færð staðfestingu í sms-i á að skráning hafi texist og svo þegar röðin er að koma að þér. Þá er kominn tími til að leggja af stað til okkar.

Netskráning hefur ekki opnað í dag en samt eru menn komnir í röð!

Við hleypum þeim sem mæta á staðinn fyrst í röðina svo þau nöfn sem þú sérð eru þeir sem eru mættir á svæðið. Netskráning opnar 9:10.

Hvað þarf ég að bíða lengi?

Fyrir þá sem vilja vita gróflega hvenær röðin kemur að þeim má áætla 20 mín á viðskiptavin að meðaltali. Þó getur spilað talsvert inn í ef margir hafa valið sama rakarann. Þannig getur þú verið næstur í stólinn þótt þú sért aftarlega í röðinni ef allir á undan hafa valið aðra rakara en þú. Því getur borgað sig að velja fyrsta lausa.

Klukkan er orðin svo margt, náið þið nokkuð að klippa mig fyrir lokun?

Ef þú ert kominn í röðina þá klippum við þig (svo framarlega sem þú sért á svæðinu). Kerfið á að loka fyrir skráningu þegar við náum ekki að klippa fleiri þann daginn en einstaka sinnum dregst dagurinn á langinn. Það tökum við að sjálfsögðu á okkur og þú færð klippingu.

Röðin var full áðan en samt eru komin ný nöfn neðst.

Stöku sinnum hætta menn við að koma og skrá sig úr röðinni. Þá opnast aftur fyrir skráningu.

 Af hverju völduð þið þessa leið?

Frá því að rakarastofan opnaði árið 1961 hafa tímapantanir ekki viðgengist hér. Þegar menn voru farnir að bíða í fleiri klukkutíma hjá okkur var ákveðið að koma upp kerfi sem gerði mönnum kleyft að sinna öðrum erindum og koma aftur þegar röðin kom að þeim. Stuttu seinna opnuðum við svo fyrir að hægt væri að skrá sig í röðina á netinu til að menn losnuðu við að fara sér ferð til að skrá sig.